Fréttir
Sumarhátíð Laufás
Sumarhátíð Laufás verður föstudaginn 5. júlí kl. 11-13. Við ætlum að gera okkur glaða stund fyrir sumarfrí. Það verða grillaðar pylsur, andlitsmálun og óvæntir gestir kíkja í heimsókn. Börnunum gefst líka kostur á að fara á hestbak á skólalóðinni. Foreldrar, ömmur, afar og systkini eru hjartanlega velkomin.
Sumarleyfið hefst kl. 13 þannig að börnin og gestir þeirra verða búnir að hita upp fyrir Dýrafjarðardaga og hátíðarhöld um helgina. Leikskólinn opnar aftur eftir sumarleyfi 12. ágúst. kl. 13.
Starfsfólk Laufás þakkar fyrir skólaárið 2018-19 og óskar öllum gleðilegs sumars.
Skóladagatal 2019-20
Skóladagatal fyrir næsta skólaár hefur verið samþykkt í foreldraráði og fræðslunefnd. Dagatalið tekur gildi 12. ágúst eftir sumarleyfi. Dagatalið má finna undir "um leikskólann" í tengli hér fyrir ofan.
Í reglum um leikskólaþjónustu segir: Leikskólar eru lokaðir sex daga á ári vegna skipulagsdaga. Þrír þeirra skulu vera á sama tíma og starfsdagar starfsfólks eða frídagar nemenda í grunnskólum. Hinir þrír geta verið ýmist hálfir dagar eða heilir. Leikskólagjöld lækka ekki vegna þessa. Börn sem dvelja í leikskólum Reykjavíkurborgar taka að lágmarki tuttugu virka daga í sumarleyfi. Leikskólastjóri ákveður, að höfðu samráði við starfsmenn og foreldraráð viðkomandi leikskóla, hvort leikskólinn verði opinn allt sumarið eða loki samfellt í tíu til tuttugu virka daga. Hér á Laufási hefur það tíðkast að taka allt sumarleyfið samfellt.
Útskrift
Miðvikudaginn 29. maí sl. útskrifuðust 3 börn úr leikskólanum Laufási í dásamlegu veðri. Við óskum þeim Guðmundi, Hélie og Þór til hamingju með að hafa lokið fyrsta skólastiginu og óskum þeim bjartrar framtíðar, gæfu og gleði. Að lokinni formlegri útskrift þar sem nemendur tóku við leikskólabók sinni, viðurkenningum og útskriftargjöfum sungu leikskólabörnin lög um vorið og að sjálfsögðu var flaggað í tilefni dagsins. Börn, foreldrar, systkini og starfsfólk borðuðu að athöfn lokinni grillaða hamborgara út á lóð saman.
Eftir hádegi héldu drengirnir í óvissuferð/útskriftarferð þar sem þeir heimsóttu m.a. Melrakkasetrið í Súðavík, sundlaugina í Bolungavík og ísbúðina. Allir skemmtu sér konunglega.
Takk fyrir dásamlega stund
Starfsfólk Laufás
Dagur leikskólans
Í gær miðvikudaginn 6. febrúar héldum við hér á Laufási upp á Dag leikskólans. Dagur leikskólans hefur verið haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins tólf ár í röð. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Það var opið hús hjá okkur í hádeginu og buðum við upp á útisúpu. Við létum ekki kuldalegt veðrið stoppa okkur og áttum notalega stund saman í skjóli undir vestur vegg leikskólans okkar. #dagurleikskólans
Ung börn og snjalltæki
SAFT og Heimili og skóli dreifa þessa dagana nýjum foreldrabæklingi „Ung börn og snjalltæki“ á alla elstu nemendur leikskóla landsins, en þar er meðal annars fjallað um fyrstu kynni barna af snjalltækjum. Við erum búin að setja eintak af bæklingnum í hólfið hjá elstu nemendum og hvetja foreldra til að kynna sér efnið með börnum sínum.
Starfsfundur
"Breytum ekki konum, breytum samfélaginu"
Á miðvikudag er kvennafrí og eru konur hvattar til að leggja niður vinnu klukkan 14.55. Langflest starfsfólk leikskóla eru konur og eru foreldrar og forráðamenn leikskólabarna því hvattir til að sækja börn sín á leikskóla fyrir þennan tíma á miðvikudag og sýna þannig samstöðu í verki.
Bleikur dagur á föstudaginn 12. október
Föstudaginn 12. október verður bleikur dagur í leikskólanum. Þá ætlum við að mæta í einhverju bleiku í leikskólann til að sýna samstöðu og hafa gaman af því að vera til í "bleikum október" mánuði.
Vonandi geta allir tekið þátt í þessu með okkur. Það er svo gaman að nýta þessi verkefni til að "lita" daginn okkar í leikskólanum.
Leikskólastarfið hafið aftur eftir sumarfrí
Búið er að bóna gólf og mála eldhús og verið er að mála þakið. Í september lítur út fyrir að það verði 15 börn í leikskólanum sem er afar ánægjulegt. Erna verður áfram leikskólastjóri, Lára verður deildarstjóri, Kristín og Hulda kennarar inn á deild og Magga verður áfram í eldhúsinu ásamt Janne sem kemur einnig til með að hlaupa í afleysingar.
Það er nóg framundan og ekkert nema skemmtilegheit í verkefnum vetrarins. Við ætlum m.a. að halda áfram að efla læsi og málörvun í "Stillum saman strengi" ásamt því að taka inn nýtt efni í stærðfræði. Heilsudagbókin verður rafræn í vetur og við ætlum að leggja inn nýtt vinaverkefni og margt margt fleira.
Dagatalið fyrir ágúst er klárt og það má finna framvegis undir "Daglegt starf" hér á heimasíðunni.
Vegna sumarleyfis koma innheimtuseðlarnir aðeins seinna inn en vanalega og afsökum við það hér með.