VALMYND ×

Fréttir

Leikskólinn lokaður miðvikudaginn 23. febrúar vegna veður

Spáin á hádegi 23. febrúar
Spáin á hádegi 23. febrúar

Það er mjög slæm veðurspá fyrir morgundaginn, miðvikudaginn 23.febrúar og komin appelsínugul viðvörun frá morgni til miðnættis. Því hefur verið ákveðið í samráði við sviðstjóra að leikskólinn verði lokaður á morgun. Leikskólinn verður þó opnaður fyrir börn neyðaraðila beri nauðsyn til. Þeir sem í hlut eiga eru vinsamlega beðnir um að hringja í undirritaða í síma 8490994 sem fyrst eða senda tölupóst á ingasi@isafjordur.is, svo hægt er að gera ráðstafanir til að opna leikskólann. Nýjar verklagsreglur um skólahald þegar óveður geysir voru samþykktar í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 16.febrúar sl. Þessar reglur verða settar hér á heimasíðu leikskólans og sendar foreldrum í tölvupósti. Vinsamlega fylgist vel með fréttum á heimasíðunni, á fésbókarsíðunni, Karellen og tölvupósti ef veðurspá breytist til hins betra og við getum opnað. Það skýrist betur þegar líður á morgunin. Með bestu kveðju, Inga Jóna leikskólastjóri.

Tannverndarvika 31. janúar-4. febrúar

Tannumhirða er mjög mikilvæg
Tannumhirða er mjög mikilvæg
1 af 2

Í tilefni tannverndarviku eigum við pottþétt eftir að ræða um bræðurna Karíus og Baktus í vikunni. Eftirfarandi upplýsingar um mikilvægi tannheilsu er að finna á heilsuveru.is

Barnatennur er nauðsynlegt að bursta að lágmarki tvisvar á dag, eftir morgunverð og fyrir svefn hvort sem um er að ræða daglúrinn eða nætursvefninn. 

Börn á leikskólaaldri þurfa aðstoð fullorðinna við tannburstun. Börn yngri en sex ára eiga ekki að skammta tannkrem á burstann.

Hæfilegt magn tannkrems á burstann er sem samsvarar nöglinni á litla fingri barnsins. 

Flúorinnihald tannkremsins er hæfilegt 1000-1350 ppm F.

Tannþráður

Tannburstinn nær ekki að hreinsa flötinn á milli tannanna. Þann flöt er nauðsynlegt að hreinsa með tannþræði. Hæfilegt að er hefja notkun tannþráðar við 3ja ára aldurinn. Foreldrar þurfa að aðstoða börnin með tannþráðinn.

Hér má sjá myndband um tannhirðu 3ja til 6 ára barna. Og hér má finna myndband um hvernig maður notar tannþráð 3ja-6 ára. 

Þorrablót á Laufás 2022

Mikið fjör, dansað og dansað og allir með
Mikið fjör, dansað og dansað og allir með
1 af 2

Í dag var þorrblót að íslenskum sið haldið á Laufási og Hubert var 2 ára. Til hamingju Hubert með daginn þinn!

Börnin bjuggu til þorrakórónur og völdu sér "víkinganafn" sem var skrifað á hverja kórónu. Það var dansað, leikið og hlegið. Við skoðuðum kindagæru, skoðuðum tólgarkerti og sungum að sjálfsögðu Þorraþræl og krummavísur. Börnin veltu fyrir sér leikföngum barna í gamladaga og skoðuðu og snertu leggi og bein. Síðan var haldið í hádegismat þar sem Iwona var búin að taka til þorramat: hangikjöt, sviðasultu, blóðmör, lifrapylsu, flatkökur, harðfisk og fleira góðgæti sem tilheyrir þorranum. Allir skemmtu sér vel á þessum góða föstudegi. Góða helgi!

 

Nýr leikskólastjóri

Inga Jóna sem við þekkjum vel kemur aftur til starfa eftir fæðingarorlof 31. janúar næstkomandi. Inga ætlar að koma inn sem leikskólastjóri og taka við stjórninni á Laufási af Ernu sem hefur stýrt leikskólanum síðan í október 2018 samhliða Grunnskólanum. Við hlökkum til að fá Ingu Jónu til starfa og óskum henni til hamingju með starfið. Erna og Inga Jóna munu halda áfram að brúa bilið milli skólastiga og leggja rækt við samvinnu.

 

Snemmbær stuðningur læsi til framtíðar-starfsdagur 18. febrúar

Litasnjókarl sem var búin til í útveru föstudaginn 14. janúar
Litasnjókarl sem var búin til í útveru föstudaginn 14. janúar

Á Skóladagatalinu er skráður starfsdagur 11.mars en við verðum að færa hann til 18.febrúar. Þann dag er leikskólinn lokaður allan daginn. Starfsmannafundur sem átti að vera 7. febrúar færist til 21. mars til að dreifa lokunartíma á lengra tímabil fyrir foreldra.

Ástæðan er að allir starfsmenn leikskólanna í Ísafjarðarbæ eru þennan dag að fá fræðslu um verkefnið snemmbær stuðningur, læsi til framtíðar frá Menntamálastofnun.

Með innleiðingu verkefnisins er lögð áhersla á að auka þekkingu og hæfni alls starfsfólks leikskólanna.

með það fyrir augum að öll börn fái íhlutun og áskoranir við hæfi í leik og starfi.
Verkefnið er unnið samkvæmt verkáætlun með það fyrir augum að virkja allt lærdómssam-
félagið um verkefnið en yfirlit um aðrar afurðir verkefnisins er m.a.
• Innleiðing, verkferill og þjálfun á tengiliðum í hverjum skóla og sveitarfélagi.
• Fyrirlestrar, handbókarrammi og efni tengt honum á vef sem er lokaafurð hvers leikskóla.
• Efni tengt snemmtækri íhlutun í hnotskurn, flokkunarrammi námsefnis, uppbygging mál-
örvunarstunda, yfirlit aldurstengdrar getu í málþroska barna og annað efni tengt verk-
efninu.
• Fyrirlestrarefni.
• Myndbönd og upptökur sem styðja og útvíkka verkefnið.
Sá lærdómur sem má hafa af þessu verkefni er að það þarf mun meiri kraft í að styðja við
leikskóla með starfsþróun alls starfsfólks innan leikskólana með áframhaldandi vinnu í anda
snemmtækrar íhlutunar sem og lærdómssamfélagsins í heild.
Markmiðið er að hámarka árangur allra barna hvað varðar málþroska og læsi því þannig má
auka líkur á góðu námsgengi síðar meir og koma í veg fyrir lestrarerfiðleika við byrjun lestrar-
náms einnig að hvert barn fái íhlutun, kennslu við hæfi og að kennsla í grunnskólum byggi á
niðurstöðum og áherslum frá leikskólum. Þannig yrði stuðlað að aukinni samfellu milli skóla-
stiga.

Gjaldskrárbreytingar hjá Ísafjarðarbæ

Um áramótin hækkuðu gjaldskrár Ísafjarðarbæjar og tóku gildi 1. janúar s.l. Almenn hækkun gjaldskráa er 2,4%, í samræmi við verðbólguforsendur sem gefnar voru út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga um mitt ár 2021.

Minnum foreldra (einstæða og skólafólk) að endurnýja þarf umsókn um lækkun gjalda um hver áramót.
 
Hér má sjá nánari upplýsingar um gjaldskrárbreytingarnar hjá Ísafjarðarbæ.

Leikskólinn opnaði 3. janúar

Útikennsla elstu börnin á leiðinni upp í skóg með vasaljós
Útikennsla elstu börnin á leiðinni upp í skóg með vasaljós

Þann 15. desember sl. þurftu börn og starfsfólk Laufás að fara í sóttkví vegna Covid smits hjá starfsmanni leikskólans. Á fimmta degi sóttkvíar eða þann 19. desember bauðst fjölskyldum og starfsfólki að fara í sýnatöku sem var framkvæmd hér á leikskólanum. Við erum afar þakklát því fólki sem kom og var tilbúið til að koma yfir til okkar. Niðurstöðurnar eftir fyrstu sýnatöku voru að 1 starfsmaður í viðbót var sýktur og 9 börn af 20. Þar sem 9 börn voru komin í einangrun og 2 starfsmenn var ákveðið að loka leikskólanum til 3. janúar til að auka lýkurnar á því að við kæmumst sem fyrst út úr þessum aðstæðum og vernda börnin og fjölskyldur þeirra og starfsfólk. Á þessum tíma varð Þingeyri í fyrsta sæti yfir fjölda smitaðra á landsvísu miðað við íbúafjölda.

Núna eru flest börnin búin að ljúka einangrun og mikið mildi að þau urðu ekki mikið lasin og flest einkennalaus. Fjölskyldur eru misheppnar með þetta allt og eru nokkrir ennþá í einangrun vegna þess að fjölskyldumeðlimir sýkjast á misjöfnum tíma. Við sendum þeim hlýjar kveðjur og óskum þess að þetta sé að verða búið fyrir þau.

Í þessi 2 ár sem við höfum búið við veiruna höfum við lagt áherslu á að börnin þvoi vel hendur og noti handspritt þegar þau koma að morgni. Þeim er orðið það tamt eins og að þvo hendur eftir klósettferðir og fyrir mat og eftir mat. Við viljum biðja foreldra að nota grímur þegar þau koma inn á leikskólann og svo er handspritt á vegg þegar komið er inn. Nándin á leikskóla er mikil og starfsfólk gætir sín eins og hægt er-ekki er ætlast til að þeir séu með grímur. 

Vonandi þurfum við ekki að taka svona "dýfu" aftur en við erum því viðbúin og styðjum hvort annað ef að verður. 

Óskum öllum gleðilegs árs og þökkum fyrir árið sem var að líða.

Tendrað á jólatrénu

Jólatréð tendrað að viðstöddum börnum á Laufási og GÞ
Jólatréð tendrað að viðstöddum börnum á Laufási og GÞ
1 af 5

Börnin á Laufási og nemendur G.Þ. töldu niður 10,9,8,7,......fyrir tendrun á stóra jólatrénu hér á Þingeyri kl. 9 í morgun í dásamlega fallegu veðri. Tunglið gerði stemmninguna mjög huggulega ásamt fallegri bleikri og appelsínugulri birtunni frá sólinni sem Stúfur og Hruðaskellir sögðu reyndar vera hitan úr Grýluhelli en henni blessuninni er víst eitthvað heitt í hamsi þessa dagana. Grýla er vonandi ekki haldin neinu jólastressi og vonandi nær hún og allir að njóta aðventunnar og samveru í skammdeginu í aðdraganda jólanna.

Allir fengu mandarínu frá jólasveinunum, sungið og gengið var í kringum tréð og Nonni spilaði undir á gítar.

Takk fyrir okkur og gleðilega aðventu

Afmæli Heilsuleikskólans Laufás

Útisúpa, Laufás 33 ára
Útisúpa, Laufás 33 ára
1 af 6

19. nóvember er afmælisdagur leikskólans hér á Þingeyri. Leikskólinn er 33 ára í dag og til þess að gera okkur daga mun borðuðu eldri börnin úti á lóð og nemendur á yngsta stigi í G.Þ. var boðið í útisúpu og nýbakað brauð í hádeginu. Íslenski fáninn var dregin á hún, börnin fengu að horfa á skrípó í hvíld og nokkrir trukkar og lyftarar bætust við leikfangasafnið í tilefni dagsins ásamt því að að afmælissöngurinn var sunginn.

Planið var að taka á móti fleiri gestum en veiran gerði það flóknara svo við slepptum því. Annars er ánægjulegt að segja frá því að börnin á Laufási eru 20 talsins og óhætt að segja að hér sé fjör alla virka daga og mikið fjör.  

Það er leikur að læra

Afmæli Heilsuleikskólans Laufás

19. nóvember er afmælisdagur leikskólans okkar hér á Þingeyri. Leikskólinn er 33 ára í dag og til þess að gera okkur daga mun borðuðu eldri börnin úti á lóð og nemendur á yngsta stigi í G.Þ. var boðið í útisúpu og nýbakað brauð í hádeginu. Íslenski fáninn var dregin á hún, börnin fengu að horfa á skrípó í hvíld og nokkrir trukkar og lyftarar bætust við leikfangasafnið. Planið var að taka á móti fleiri gestum en veiran gerði það flóknara.